Lesskilningsþjálfun í gegnum hlutverkaleik

Góður lesari þjálfar með sér tækni til að skilja texta. Þessa tækni er hægt að þjálfa hjá flest öllum lesurum. Þjálfunaraðferðin sem við kynnum hér er bæði skemmtileg og gagnleg. Hún fer þannig fram að nemendur eru settir í hlutverk. Hlutverkin eru spákona, spæjari, listamaður, fréttamaður og kúreki. Kennarar sem nota aðferðina byrja margir á því að þjálfa eitt eða tvö hlutverk og bæta svo smátt og smátt fleirum við.

Á miðstigi hefur reynst vel að setja fimm saman í leshóp og fær hver nemandi sitt hlutverk. Ef þeir eru fleiri þá geta tveir verið saman með eitt hlutverk. Í hópnum lesa nemendur saman sömu bókina. Spákonan byrjar á að skoða fyrirsögn og myndir og spá fyrir um innihald textans. Fyrsti nemandi byrjar að lesa, t.d. eina blaðsíðu. Að því loknu spyr kennari spæjara hvaða orð honum finnist þörf á að láta útskýra. Fréttamaður er spurður hvort hann hafi spurningar úr textanum og listamaður er beðinn að lýsa því sem hann sá fyrir sér á meðan lesið var. Að lokum snarar kúrekinn textann með snörunni sinni og endursegir aðalatriðin. Spákonan segir okkur hvort spádómurinn hafi ræst og að því loknu spáir hún á nýjan leik um hvað stendur líklega á næstu blaðsíðu. Nú er komið að öðrum nemenda að lesa og svona gengur þetta koll af kolli þar til hópurinn hefur lesið alla bókina. Aðferðin er tímafrek en hún tryggir að allir skilja það sem fram fer og gefur tækifæri til bókmenntalegra vangaveltna og að kafa dýpra í textann. Með yngri börnum sem eru ekki orðin vel læs, hefur reynst vel að kennari lesi fyrir þau.

Við hvetjum ykkur til að prófa aðferðina, hún byggir á læsisrannsóknum og krakkarnir eru virkir. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um aðferðina á sænsku

Skot mánaðarins
Nýleg skot
Leita eftir efni
Fylgdu okkur
  • Facebook Long Shadow
  • Pinterest Social Icon